Að gera 5 mínútur að heilli viku
Hefur þú velt því fyrir þér hve mörgum mínútum þú verð í bílnum þínum til og frá vinnu? Þegar morgunumferðin þéttist og allt situr fast eða seinnipart dags þegar allir eru á leiðinni heim. Það myndast umferðateppur þar sem margir eru á sömu leið á nákvæmlega sama tíma. Síðla dags virðist vera þyngri hér á höfuðborgarsvæðinu, sumir eru á leiðinni að ná í börnin sín fyrir lokun leikskóla og dagvistar, enn aðrir að keyra börnin í tómstundir en fjölmargir eru einfaldlega á leiðinni heim. Við það eitt að vera í umferðinni á háannatíma fjölgar þeim mínútum sem fara í hverja ferð á milli staða. Þessi umferðarteppa er ágætis speglun af vinnutíma stórs hluta vinnumarkaðarins, frá 8-17 þar sem teppan byrjar rétt fyrir klukkan átta og nær til að verða 9, byrjar síðan aftur um klukkan 16:30 og nær til að verða 17:30. Á þessum tíma gengur allt hægar, þar sem í kjölfarið kvarnast af tíma okkar og jafnvel orku, af því fyrir suma myndar hún streitu sem sannarlega getur tekið toll. Ef við myndum leggja fram einfalt reikningsdæmi þar sem starfsmaður sem er alltaf á háannatíma í umferðinni, til og frá vinnu, er að jafnaði 5 mínútum lengur í vinnu og hefur þá að árinu liðnu varið til viðbótar tæpum 37 klukkustundum í bílnum. Það hefur einnig verið áberandi athugasemd hjá þeim starfsmönnum sem hætta fyrr á daginn, meðal annars þeir sem hafa verið í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar, að tímasparnaðurinn við að sleppa við umferðarþunga álagstímans sé mikill kostur.

