Ný gleraugu

Það er ekkert sérlega freistandi að fá í fangið verkefni sem þú veist að mun aldrei klárast. Kannski er það ein af ástæðum fyrir því að marga óar við því að taka upp stjórnunaraðferðir straumlínustjórnunar. Við finnum mörg hver fyrir knýjandi þörf til að skila af okkur góðu verki, segja því lokið. Setjum jafnvel undir okkur hausinn og gerum það sem gera þarf til að geta sagst vera búin.

Straumlínustjórnun eða Lean Management hefur stundum verið skilgreind sem endalaus vegferð nýrra tækifæra, hljómar vel ekki satt? Þetta samheiti, Lean Management, er meira en ákveðin tækni, stjórnunaraðferð eða hugbúnaðarpakki. Umfram allt er straumlínustjórnun strategísk nálgun, byggð á samvinnu fólks og skuldbinding þess efnis að í öllum rekstri sé sóun lágmörkuð en virði til viðskiptavinar sé aukið á sama tíma.

Ný gleraugu

Straumlínustjórnun nýtir ýmiskonar aðferðir sem stjórntæki og má líkja þeim við að setja upp ný gleraugu því viðskiptavinir og framtíðin er alltaf í forgrunni. Með þeim er sýnin skerpt annars vegar á virði fyrir viðskiptavininn og hins vegar virði til framtíðar. Hugmyndafræðin er ekki byggð á skammtímamarkmiðum sem hægt er að innleiða sem átaksverkefni heldur er miklu frekar um langferð að ræða. Með því að nýta sér aðferðir á borð við teymishugsun, daglega fundi, reglulegar umræður um frávik og leiðir að markmiðum verða fyrirtæki betur í stakk búin til að takast á við ýmiss konar breytingar, setja sér skammtímamarkmið og ná þeim. Helstu ástæður þessa eru að starfsmenn hafa sameiginlega sýn, skilningur þeirra á núverandi stöðu er sá sami og markmiðin eru sameiginleg, þannig að saman finna þeir bestu leiðina til að ná árangri.

Hin eilífa áskorun er að gera betur í dag en gær, að bæta sig skref fyrir skref. Við hvern áfanga má sjá nýja möguleika til að gera enn betur og vita jafnframt að það sem er virði fyrir viðskiptavini okkar í dag getur breyst á morgun.
Það er því kannski ekki innleiðingin sjálf eða verkefnið sem aldrei tekur enda heldur eru það möguleikar okkar til að gera betur og finna nýjar lausnir sem eru óendanlegir.

Aðalheiður Sigursveinsdóttir, ráðgjafi og leiðtogaþjálfari.

Höfundur er stofnandi Breytingar og vinnur við að veita fólki innblástur og hvatningu til að skapa nýja möguleika til framþróunar og hvetja aðra til þess sama, þannig sköpum við nærandi samfélag sem eflir fólk til betri lífsgæða.

Hafðu samband

Sendu mér skilaboð og ég hef samband við fyrsta tækiæri.

0