Tækifæri í styttri vinnuviku
Fram undan eru heilmikil þróum og breyting á íslenskum vinnumarkaði. Á næstu misserum verður viðfangsefni fjölmargra vinnustaða að stytta vinnuvikuna í kjölfar þeirra samninga sem undirritaðir voru í síðustu viku.
Meðal þess sem kynnt var í samningum er breyttur vinnutími á almennum vinnumarkaði og þar með lagðar til breytingar á hinni hefðbundnu 40 stunda vinnuviku sem lögfest var árið 1971. Í alþjóðlegum samanburði hefur framleiðni á íslenskum vinnumarkaði verið minni en í samanburðarlöndum auk þess hefur vinnuvikan verið lengri hér á landi en í nágrannalöndum okkar.
Á síðustu árum hafa nokkur fyrirtæki, stofnanir og starfseiningar innan sveitarfélaga stytt vinnuvikuna með jákvæðum árangri m.t.t. vinnumenningar og líðan starfsmanna innan og utan vinnustaðar.
Nú fer í hönd mikilvæg umræða og samráð milli starfsmanna og vinnuveitenda um útfærslu þessa ákvæðis og eftirfylgni. Miðað við þá reynslu sem tilraunaverkefnin hafa hingað til skilað má ætla að ávinningur þessa fyrirkomulags geti verið mikill fyrir alla hlutaðeigandi. Styttri vinnuskylda mun leiða til aukins sveigjanleika starfsmanna í flestum tilfellum.
