Óvæntir ofurkraftar

Kannast þú við starfsmanninn sem alltaf er tilbúinn í nýjungar eða að skoða hlutina upp á nýtt?

Það getur verið ómetanlegt í hröðu umhverfi breytinga að hafa nýjungagjarna starfsmenn sem hafa næmt auga fyrir því hvað má bæta og eru einnig tilbúnir til að láta á það reyna að gera hlutina með nýjum hætti. En vissir þú að þetta er meðal þess sem einkennir mjög marga starfsmenn með ADHD? Þessir einstaklingar hafa gjarnan breytt áhuga- og þekkingarsvið sem þeir eiga nokkuð auðvelt með að tvinna saman og kemur það sér sérstaklega vel þegar þarf að hugsa um nýjar lausnir eða leiðir. Það er oft einkenni þeirra sem eru með athyglisbrest að þeir eru fljótir að átta sig á aðstæðum og þurfa að hafa yfirsýn. Þeir hafa jafnframt getu til að púsla saman hlutum í huganum upp á nýtt og gjarnan myndrænt. Fólk með athyglisbrest eru því í raun með mjög mikla athygli, hún er bara á mörgu í einu. Það er kannski þess vegna sem flokkunarkerfið er svona gott hjá þessum einstaklingum, það er sú staðreynd að yfirflæði upplýsinga er alltaf í gangi og úrvinnslan hefur með tímanum fundið sér farveg.

Óvæntir ofurkraftar

Óvæntar vísbendingar

Fyrir nokkrum misserum fór mig að gruna að ég sjálf gæti jafnvel verið með athyglisbrest. Sá grunur hafði annað slagið laumast að mér í gegnum tíðina, en ég bægði þeirri hugsun frá mér jafn óðum. Ég sagði við sjálfa mig að ég þyrfti bara að reyna að skipuleggja mig betur, muna hvar ég setti hlutina, finna leiðir til að láta ekki truflast af umhverfinu, virkja skammtímaminnið með æfingum eða bara finna nýjar leiðir til að ná tökum á hverju því sem ég var að kljást við þá stundina. Í kjölfar þess að ættingi minn fór í gegnum greiningu, og ég þurfti að svara ýmsum spurningum sem beinast að einkennum athyglisbrests fóru að renna á mig tvær grímur, ég komst að því að ég vissi mun minna en ég hélt um þetta fyrirbæri. Ég hafði gefið mér að ég vissi hvað ADHD væri sem reyndist síðan vera nokkuð skökk ímynd. Vanþekking mín var talsverð. En það einhvers virði að fara í greiningu, komin yfir fertugt? Það skiptir mig máli að skilja hlutina, ekki síst fólk og þar með mig sjálfa. Ég hafði stutt áðurnefndan ættingja dyggilega í því að fara í greiningu og í kjölfarið líta á greiningu sem jákvæðar fréttir. Ef ég ætlaði að vera heil í því að styðja viðkomandi gat ég ekki haft efann með í för.  ADHD þroskast ekki af fólki  þó að birtingarmyndir hans breytist.  Það þurfti smá kjark til að taka þetta skref en það er sennilega ein af betri ákvörðunum sem ég hef tekið í lífinu. Því í kjölfarið opnast ýmsar skýringamyndir og leiðir.

 

Hugurinn er mjög virkur

Helstu birtingarmyndir ADHD eru athyglisbrestur (sem á ekki að lesa sem skort á athygli heldur frekar víðhygli, athyglin er gjarnan á mörgu í einu), hvatvísi og ofvirkni. Það sem er svo athyglisvert er að oft er „ofvirknin“ túlkuð eingöngu sem líkamleg ofvirkni. En það er í raun rangt og mikil einföldun, einstaklingur getur virst pollrólegur á meðan hugurinn þeytist á ljóshraða, auk þess sem hreyfiofvirkni er að mestu ómeðvituð leið til að auka framleiðslu dópamíns. Undirliggjandi er sama taugaþroskaröskunin. Þetta einkenni hefur verið mér mjög erfitt, þar sem ég hef oft átt erfitt með tjá mig eða segja frá hugmyndum og skoðunum því að hugurinn er svo hraður að ég þarf sérstaka einbeitingu til að muna hvað ég var að hugsa nokkrum mínútum áður og þarf því að reyna að finna orðin og hægja á huganum.

Að safna áhugamálum

Frá því að ég man eftir mér hef ég verið mjög opin fyrir því að læra nýja hluti og kanna ný áhugasvið og áhugamál, eins og safnari en ég safna áhugamálum. Þá fer ég gjarnan á bólakaf og heillast af viðfangsefninu, gleymi mér.  Ég hef gjarnan viljað taka U-beygjur í atvinnumálum og þá með það að markmiði að læra nýja hluti, hugmyndir og öðlast nýja hæfni. Þetta tengdi ég aldrei við athyglisbrest en þetta er svo sannarlega ein birtingarmynd hans. Sú breiða þekking sem skapast við þetta munstur er gulls ígildi þegar kemur að því að yfirfæra þekkingu og reynslu í nýjar aðstæður.

Breytileg birtingarmynd

Það er gagnlegt að vita að einkenni ADHD geta verið misjöfn, milli einstaklinga og eftir æviskeiðum. Í gegnum tíðina hefur líkamleg ofvirkni verið ríkjandi kennimynd fyrir athyglisbrest sem og hvatvísi. Nokkuð er um að fólk fari í greiningu á fullorðinsárum, bæði vegna þess að þekkingin á ADHD er alltaf að aukast og einnig vegna þess að birtingamyndir og áskoranir breytast með aldrinum. Þá virðist upplifun fullorðinna kvenna á ADHD vera önnur en karla. Konur með ADHD eru síður hvatvísar og líkamlega ofvirkar en karlmenn. Þess í stað geta einkennin komið fram í því að eiga erfitt með skipulag, virðast hæglátar, draga sig til baka og forðast fjölmenni. Konur með ADHD virðast einnig hafa lægri þröskuld fyrir streitu, sem stafar helst af því að það er svo mikið að gerast í höfðinu á þeim nú þegar. Rannsóknir benda þá til þess að andleg og langvarandi streita, og lágt sjálfsálit séu jafnframt einkenni meðal kvenna sem hafa athyglisbrest.

 

Þrautþjálfuð seigla

Það er algengt hjá þeim sem greinast ekki fyrr en á fullorðinsárum að hafa djúpstæða skömm vegna einkenna sem tengja má við ADHD. Það þekki ég sjálf því þau atriði sem ég glími við eru bæði litlir og stóri hlutir í daglegu lífi, sem ég gat ekki skilið hvers vegna ég náði ekki skikk á, reyndi að fela eða jafnvel lokaði augunum fyrir.  Já, hlutir eins og eigin tímarammi, að týna hlutum, gleyma hlutum og að þurfa áminningar um mikilvæga hluti sem flestir þurfa ekki. Það tók eiginlega mun meira pláss að rífa mig niður vegna daglegra hluta heldur en að sjá styrkleikana í stóru myndinni. En eins og áður sagði þá er ég eiginlega nýbúin að átta mig á því að þessi atriði væru hlutir úr sama púsli sem er bæði áhugavert og skemmtilegt.

Það er mjög margt virkilega jákvætt við ADHD og ég er ótrúlega þakklát fyrir að vera svona vel búin. Það kom mér í opna skjöldu þegar ég áttaði mig  á að eftirfarandi atriði eru meðal styrkleika fólks með ADHD:

Eiga auðvelt með að sjá stóru myndina

Sjá hlutina oft frá öðrum sjónarhornum

Eiga auðvelt með að skipuleggja stór verkefni

Fókus (e. hyperfókus)

Þrautseigja

Fljót að læra (þegar áhuginn er til staðar)

Hugvitssöm og hugmyndarík (outside-the-box thinking)

Tilbúin að taka áhættu/hvatvísi

Örlát

Mikil orka, vinna mjög vel undir tímapressu

Auðvelt með að koma auga á það sem aðrir taka ekki eftir

Í ofangreindum lista er lítið orð; „þrautseigja“, sem er í raun lykillinn að því að koma hugsun í framkvæmd. En þessu hugsanaflæði fylgir líka oft á tíðum erfiðleikar við að halda sig innan fastmótaðs fyrirkomulags og stöðnunar.

 

Matta hliðin á glanspeningnum

Hversu virðingarvert finnst þér þegar fólk viðurkennir mistök sín eða bendir á veikleika sína? Persónulegir eiginleikar hafa tvær hliðar, styrkleika sem við viljum gjarnan sýna en svo er hin hliðin sem við viljum oftar fela. Við erum jú sjaldnar að stæra okkur af veikleikum okkar. En til þess að geta nýtt og unnið með eiginleika okkar þurfum við að skilja til fulls í hverju þeir felast, frá öllum hliðum. Stundum þurfum við hjálp til að sjá blindu punktana, bæði í styrkleikum og veikleikum. Í mínum huga er það virðingarvert þegar fólk er meðvitað um og talar um eiginleika með heildstæðum hætti. Það er einfaldlega trúverðugra að tala um allar hliðar frekar en bara styrkleikamyndina. Einmitt þannig sjáum við mennskuna sem við heillumst af og við tengjum frekar við fólk sem deilir með okkur áskorunum.

Það er dýrmætt að vinna með áskoranirnar sínar en í því fylgir oft berskjöldun. Sú tilfinning hellist yfir við að rita og birta þessa grein og er hressileg æfing fyrir hugrekkið. En um leið og við fellum varnir, opnum við á nýjar tengingar við fólk. Sá sem ekki fer þá vegferð að vinna með eiginleika sína út frá fleiru en bara styrkleikum er jafnframt líklegur til að vera að missa af möguleikum við að tengjast öðrum. Í því samhengi vil ég sérstaklega ræða um stjórnendur og fólk sem vinnur náið í teymisvinnu. Það er því miður algengur misskilningur að áskoranir og veikleikar séu einkamál sem ekki þurfi að ræða, sérstaklega ekki við samstarfsmenn. Í þeim misskilningi er gjarnan blandað saman höggstað og veikleika. Sá stjórnandi sem talar um þá staðreynd að eiginleikar sem almennt teljist til styrkleika geti haft neikvæðar hliðar fær fyrst og fremst skilning og virðingu hjá samstarfsfólki, en gefur einnig óviðjafnanleg skilaboð til starfsmanna um að það sé öruggt og eftirsóknarvert að ræða hvernig þeirra styrkleikar eigi sér aðra hlið.

Kannski er einmitt þetta sem ég heillar mig mest við yngri kynslóðirnar á vinnumarkaði, með þeim kemur ferskur blær sjálfsþekkingar og fordómaleysis. Stundum er talað niður til þeirra sem kynslóðanna sem eru með endalausar greiningar og frávik. En það sem raunverulega liggur þar að baki eru einstaklingar sem hafa náð þeim áfanga að horfast í augu við hindranir sínar og vina sinna og þekkja að vinna með þær. Í því felst mannleg dýpt og oft á tíðum dýpri skilningur á þörfum annarra.

Að virkja kraftana

Það er margt sem mótar okkur og getur skýrt hugsanamynstur okkar, hugarfar og hegðun. Einstaka eiginleikar okkar skilgreina okkur ekki umfram aðra, ekki ADHD frekar en aðrir. Við höfum fjölbreyttar gáfur en höfum jafnframt getu til að bæta við þekkingu og hæfni okkar út lífið.

En forsenda þess er tiltrú okkar sjálfra á eigin getu og hafa vilja til að þjálfa okkur í nýrri hæfni. Þegar við þekkjum veikleikana höfum við tækifæri til vinna með þá. Að vera með athyglisbrest getur falið í sér mikla styrkleika þegar kemur að því að halda opnu hugarfari og vera tilbúin til að sjá hluti og möguleika í nýju ljósi og reyna nýjar leiðir. Það er skemmtileg og fjölbreytt flóra fólks sem er með athyglisbrest, en þau fara oftast ekki meðalveginn. Vertu bara viss um að hafa að minnsta kosti einn með í hópnum þínum, hvort sem það er vina- eða vinnuhópur. Það heldur ykkur ferskum og er upplífgandi félagsskapur sem mun halda ykkur á tánum.

Aðalheiður Sigursveinsdóttir

Höfundur hefur lokið  BA í heimspeki, MBA frá HR, markþjálfunarnámi og  námi í einkaþjálfun. Hefur  meðal annars starfað sem sérfræðingur í markaðsmálum, rekstrarstjóri, samskiptastjóri, deildarstjóri, Þjónustustjóri, sölumaður, ráðgjafi, markaðsstjóri, mannauðsstjóri, stjórnendamarkþjálfi, aðstoðarmaður ráðherra og rekur nú sitt eigið ráðgjafafyrirtæki.

Hafðu samband

Sendu mér skilaboð og ég hef samband við fyrsta tækiæri.

0