Hvað eyddir þú miklum tíma í óþarfa fundi í síðustu viku? Hvað kostaði það þig í yfirvinnu eða fyrirtækið í heild sinni? Á haustdögum með sumarfríið að baki eru ansi margir sem bíða spenntir eftir því að rútínan taki við eftir að sumarfrí hefur runnið sitt skeið. Rútínan er okkur ákveðið haldreipi, verkefnin eru fyrirfram ákveðin að einhverju leiti, áhugamál og tómstundir komast í takt við vinnu og fjölskyldulíf. Um leið og við siglum inn í rútínu er gott að velta fyrir sér í hverju hún er fólgin, ekki síst í tengslum við vinnubrögð og skipulag okkar sjálfra.
Fyrirtæki sem innleiða straumlínustjórnun setja fókusinn á eigin skilvirkni og hugsa um hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar til að auka virði fyrir viðskiptavini. Eitt af því sem gjarnan kemur upp í greiningu á virði aðgerða eru fundir og fundarmenning sem hefur skapast. Í mörgum fyrirtækjum er rík fundamenning, við höfum vanið okkur á að bóka fundi vegna ýmiskonar mála. Slík fundarmenning getur verið tímaþjófur í sjálfu sér.