Kannast þú við einhvern sem á sérstaklega erfitt með fagna stórum áföngum eða góðum árangri af því að viðkomandi einblínir á það sem miður fór á leiðinni? Að viðkomandi finni jafnvel til líkamlegra óþæginda við tilhugsunina? Hann hefur ef til vill unnið að tímamótaverkefni sem hefur jafnvel yfirtekið alla hugsun og kraft í ákveðinn tíma en getur samt sem áður ekki glaðst yfir árangrinum því honum finnst svo mikið vera óunnið og margt sem enn er hægt að fjalla um?
Já þetta hljómar ósanngjarnt, en er nú samt raunsönn mynd af mörgum. Ég er svo lánsöm að þekkja nokkra svona einstaklinga og styð fjölmarga stjórnendur og leiðtoga sem standa í þessum sporum auk þess sem ég tilheyri hópnum sjálf. Þess vegna ætla ég að tala um okkur í þessari grein. Þessum eiginleikum fylgja nokkrar fleiri og fjölbreyttar birtingarmyndir.
Að fara óhefðbundnu leiðina
Vinnsla verkefna er mjög gott dæmi til þess að lýsa eiginleikum þessara einstaklinga. Það er mikil einföldun en sumir halda jafnvel að það gerist ekkert nema undir tímapressu hjá okkur. Við vinnum reyndar ekki á sama takti og margir og stundum eigum við það til að byrja á lokavinnslu verkefna seint. Sérstaklega á þetta við um verkefni sem snúa að sköpun eða framsetningu á nýjum hugmyndum. Ferillinn er frekar skemmtilegur; við fáum hugmynd, setjum fram kenningu byggða á þekkingu og höldum svo af stað. En leiðin er ekki bein, nei, við förum aldrei beina leið eða troðna braut. Við hugsum stöðugt um hugmyndina, leitum að gögnum, lesum, punktum ef til vill hjá okkur (en alls ekki alltaf). Eftir því sem við skoðum meira, koma fleiri hugmyndir sem og fletir fram, stundum tengdir, stundum ekki. Við söfnum samt, dýpkum skilning okkar jafnt og þétt og mátum við veruleikann. Tíminn líður og það er ekkert komið á blað, en samt höfum við kannski margoft gleymt okkur í gagnaleit. Það styttist í að við þurfum að skila af okkur verkinu. Þá finnum við, stundum í formi kvíðahnúts eða skapstyggðar, að adrenalínið okkar er farið að streyma. Þá kemur að því að við getum nýtt okkur ofureinbeitinguna og farið að búa til hina endanlegu afurð. Hér eru samstarfsmenn líklega löngu farnir á taugum og búnir að afskrifa að nokkuð komi frá okkur. Í staðinn verður til afurð sem er líklega nýstárleg, frumleg og þaulhugsuð. Framsetningin á efninu tók stuttan tíma en sköpunin var í gangi allt frá því að við fengum verkefnið í fangið. Endapunkturinn er sjaldan settur löngu fyrir skil, það er setið við að klára verkið með mikilli einbeitingu, stundum langt fram yfir eðlilegan vinnutíma. Á þeim lokametrum púslast oft margir fletir saman í heildarmyndina.
Það er oft á tíðum mikil áhersla á að klára vel unnið, framúrskarandi verk en þar sem greiningarhæfnin er svo góð, teljum við sjaldnast að verkið sé fullklárað. Óvægin og stöðug sjálfsgagnrýni verður líka oft til þess að ánægjan er ekki alltaf sjálfgefin. Auk þess sem djúpstæð vinna af þessum toga hefur einnig alið af sér bæði fleiri mál sem þarf að greina og vinna og enn fleiri hugmyndir sem hægt er að vinna með í framhaldinu. Það er líkt og við sogumst inn í verkefni og viðfangsefni þar sem við gleymum stund og stað. Við þurfum jafnvel að beita sérstökum ráðum til að losa eða hvíla hugann, því það nægir ekki að fara bara heim. Hreyfing, íþróttir, líkamleg vinna eða hugleiðsla reynist oft vel.
Myndin skýrist
Margir skella því fram í hálfkæringi að þeir hafi sennilega verið ofvirk, hvatvís, alltaf verið mjög gleymin og með námsörðugleika sem börn. Þeir hinir sömu tengja ekki vandamál sín á fullorðinsárum við einkenni ADHD hjá fullorðnum. Enn fylgir þó gamalgróin tilfinning innra með þeim, að finnast þeir ekki alveg eins saman skrúfaðir og allir hinir. Það er ekki léttvæg birgði að bera. Því fylgir gjarnan sá eiginleiki að upplifa eða hræðast það að vera að missa tökin eða reyna að setja sig inn í ramma eða box sem ekki hentar. Við höfum bara ekki haft aðgang að þessum upplýsingum og því ekki náð að púsla einkennum saman í eina mynd, einfaldlega vegna þess að þekking almennings og oft á tíðum heilbrigðisstarfsfólks á ADHD er mjög takmörkuð og ástæðan er sú að rannsóknir eru skammt á veg komnar.
Að „þurfa“ að gera meira
Það er algengt að fólk eins og við, sem hefur lengi upplifað sig svolítið á skjön við normið í gegnum tíðina sé með þá innbyggðu hugsunarvillu að þeir þurfi og eigi að leggja meira á sig en aðrir. Kannski tengist þetta við annað verklag og nálgun verkefna. Því miður göngum við stundum of langt, við göngum á okkur sjálf. Því við höfum ríka tilhneigingu til þess að ganga á eigin orkubúskap.
Jafnvel þó að alla jafna séum við góð að greina aðstæður og umhverfi okkar, átta okkar á tilfinningum fólks í kringum okkar jafngildir það ekki því að standa vörð um sínar eigin grunnþarfir svo sem að fá nægan svefn, borða reglulega eða sinna félagslegum þörfum sínum. Reyndar eigum við mörg við það að etja að hafa óreglu á svefni eða eiga hreinlega við svefnvandamál að stríða.
Þetta munstur getur, ef það er óáreitt og án vitundar verið hættulegt. Það getur verið svo alvarlegt að það leiði af sér þunglyndi, kvíða, ofþreytu eða jafnvel kulnun. Jafnframt er algengt að þau einkenni séu meðhöndluð en horft sé fram hjá orsakavaldinum.
Hlutir af sama púslinu
Þar sem margir eru með ADHD en hafa ekki fengið greiningu, eru jafnframt margir sem ekki hafa fengið fræðslu um hvað felst í þessum eiginleikum. Því miður er það svo að við erum fljót að mynda okkur skoðanir og teljum okkur hafa þekkingu af nægjanlegri dýpt en þar sem sífellt meiri þekking bætist við, t.d um ólíkar birtingarmyndir eftir æviskeiðum er eins og púslunum fjölgi og myndin skýrist. Við sem höfum farið í greiningu á fullorðinsárum tengjum vel við að birtingarmyndirnar hafa komið okkur á óvart og tengt saman ýmislegt bæði það sem við teljum vera helstu styrkleika og svo aðra hluti sem við erum ekki jafn ánægð með. Það kom mér verulega á óvart að mjög ólíkir hlutir eins og tímaskyn, ofureinbeiting, viðkvæmni fyrir ákveðnum hljóðum og snertifælni væru hluti af sama púslinu.
Sennilega erum við alltaf öll að púsla hlutum saman, en ef þú hefur komið auga á einhverja kubba sem þú vissir ekki af þá ertu nær þinni mynd. Ef þú sérð kubba sem vinur þinn þarf á að halda inn í sína mynd þá þarftu ekki að spyrja eða fara í felur. Endilega deildu greininni það er svo frábært þegar við fáum nýja mynd.
Aðalheiður Sigursveinsdóttir, ráðgjafi og leiðtogaþjálfari.
Höfundur er stofnandi Breytingar og vinnur við að veita fólki innblástur og hvatningu til að skapa nýja möguleika til framþróunar og hvetja aðra til þess sama, þannig sköpum við nærandi samfélag sem eflir fólk til betri lífsgæða.