Tækifæri í styttri vinnuviku

Fram undan eru heilmikil þróum og breyting á íslenskum vinnumarkaði. Á næstu misserum verður viðfangsefni fjölmargra vinnustaða að stytta vinnuvikuna í kjölfar þeirra samninga sem undirritaðir voru í síðustu viku.

Meðal þess sem kynnt var í samningum er breyttur vinnutími á almennum vinnumarkaði og þar með lagðar til breytingar á hinni hefðbundnu 40 stunda vinnuviku sem lögfest var árið 1971. Í alþjóðlegum samanburði hefur framleiðni á íslenskum vinnumarkaði verið minni en í samanburðarlöndum auk þess hefur vinnuvikan verið lengri hér á landi en í nágrannalöndum okkar.

Á síðustu árum hafa nokkur fyrirtæki, stofnanir og starfseiningar innan sveitarfélaga stytt vinnuvikuna  með jákvæðum árangri m.t.t. vinnumenningar og líðan starfsmanna innan og utan vinnustaðar.

Nú fer í hönd mikilvæg umræða og samráð milli starfsmanna og vinnuveitenda um útfærslu þessa ákvæðis og eftirfylgni. Miðað við þá reynslu sem tilraunaverkefnin hafa hingað til skilað má ætla að ávinningur þessa fyrirkomulags geti verið mikill fyrir alla hlutaðeigandi. Styttri vinnuskylda mun leiða til aukins sveigjanleika starfsmanna í flestum tilfellum.

Tækifæri í styttri vinnuviku

Ákvæðið um styttingu vinnuviku hefur verið kynnt þannig að um samninga eða sáttmála verði að ræða á vinnustöðum, milli starfsmanna og stjórnenda, um með hvaða leiðir verði farnar. Það er ljóst að í þeim efnum er að mörgu að hyggja.

Í tilraunaverkefni Þjóðskrár Íslands sem hefur staðið frá árinu 2017, þar sem vinnuvikan var stytt í 36 tíma á viku voru farnar margvíslegar leiðir til að ná því meginmarkmiði að stytta vinnuviku án þess að skerða þjónustu. Með samstilltu átaki og fjölmörgum aðgerðum tókst að bæta þjónustutíma og stytta vinnuviku á sama tíma. Í upphafi var leitast við að finna einfaldar leiðir til að bæta ýmiskonar tímastjórnun með einföldum og samstilltum hætti. En til þess að viðhalda þeim árangri hefur jafnframt þurft að ítreka ákveðna þætti, breyta áherslum og styðja sérstaklega við stjórnendur.

Það er jafnframt reynsla mín af innleiðingu á styttingu vinnuviku að ákveðnir hópar eiga mjög auðvelt með styttingu vinnutíma og aðrir eiga erfiðara með að stytta sinn vinnutíma. Þá er jafnframt áskorun að ná markmiðum um styttingu vinnuviku á álagstímum og þegar þjónustutími og/eða vinnutími er lengri en átta tímar á dag.

Margar leiðir eru að útfærslu innan þess ramma sem gefinn er. Það eru spennandi áskoranir og umræður sem munu fara fram innan vinnustaða sem ég mæli eindregið með að verði tekist á við sem tilraunir í átt að bættri menningu á vinnustöðum.

Hafðu samband

Sendu mér skilaboð og ég hef samband við fyrsta tækiæri.

0