fbpx

Ég vildi að ég væri með ADHD

Hversu marga einstaklinga þekkir þú sem eru með ADHD? En hversu margir einstaklingar halda að það að vera með ADHD sé veikleiki? Ég þekki nokkra sem eru með ADHD en mér finnst ég þekkja enn fleiri sem telja sig vita að það að vera með ADHD sé veikleiki, hindrun eða takmörkun. Ákveðin byrgði sem hefur einungis neikvæð áhrif á líf einstaklings. Sjálf er ég ekki greind með ADHD – enda tel ég mig ekki hafa þá eiginleika en undanfarið hef ég verið að hugsa; „Vá hvað ég vildi að ég væri með ADHD!“

Ég vildi að ég væri með ADHD

Kassinn verður formlaus

Nýlega byrjaði ég að starfa fyrir einstakling sem er með ADHD. Hann er tiltölulega nýlega greindur og er enn sjálfur að átta sig á þessum eiginleikum. Við upphaf starfsins, datt mér ekki í hug að þetta yrði eitthvað frábrugðnara öðru sem ég hafði starfað við, þetta var kannski nýr starfsvettvangur en vinna er bara vinna, ekki satt? Þarna hafði ég rangt fyrir mér. Í hreinskilni sagt hef ég aldrei lært eins mikið og hef ég þurft að læra að fara nýjar og öðruvísi leiðir í samstarfi við þennan einstakling. Vinnan er hröð á tímabilum og ég er einungis nýlega farin að ná að grípa allar frábæru hugmyndirnar sem vinnufélaginn fær, og vinna með þær þannig að þær verði að einhverju einstöku og nýju sem víkkar sjóndeildarhring fólks. Það að vinna með einhverjum sem hugsar alltaf langt út fyrir kassann hefur veitt mér gríðarlegan innblástur, jafnvel það mikinn að ég er farin að óska þess að vera með ADHD. Það er vegna þess að einstaklingar með ADHD hafa einstaka eiginleika; eru fljótir að læra, hugmyndaríkir, örlátir og þrautseigir og sjá hlutina frá öðrum sjónarhornum. Hver vill ekki hafa þessa eiginleika?

 

Önnur bylgjulengd

Sjóndeildarhringur fólks á það nefnilega til að vera frekar takmarkaður, þá er sjónarhornið þröngt innan veggja kassans sem umlykur okkur með öryggi. Vinnufélaginn með ADHD á það hins vegar til að kollvarpa kassanum. Í kjölfarið víkkar sjóndeildarhringurinn; þér er komið fyrir á annarri bylgjulengd sem einstaklingur hefði ekki getað ímyndað sér að væri til og þá er ómögulegt að fara til baka.

 

Skömm greiningarinnar

Þrátt fyrir þessa einstöku eiginleika sem fólk með ADHD hefur er algengasta hugmyndin sú að ADHD sé veikleiki og eitthvað sem á að skammast sín fyrir. Ég gæti vel trúað því að neikvæði hugsunarhátturinn á bak við það að vera með ADHD stafi meðal annars af kynslóðarmun. Eldri kynslóðir eiga það frekar til að loka á svona fyrirbæri, keyra sig út og tala ekki um það; forðast greiningar af því að á bak við greiningar er langvarandi skömm. Það hefur verið sagt um skömmina að hún sé drifkraftur í sjálfsmynd okkar, tilfinning sem væri hluti af því að móta sjálfsmynd okkar. Ef svo er, eigum við þá ekki að leyfa því að vera svo? Þá að minnsta kosti erum við sjálfum okkur trú.

 

Kynslóðabilið ægilega

Ég er af kynslóðinni sem er í raun aðeins rétt að stíga fæti inn á vinnumarkaðinn, oft þekkt sem kynslóðin sem er með fjöldann allan af greiningum og litið er niður á. Í kjölfarið af því er ég hins vegar opinn með mína eiginleika, hvort sem það eru veikleikar eða styrkleikar. Það var því erfitt að setja sig í spor þess sem var hræddur við það að opinbera sig með ADHD. Mér fannst ekkert sjálfsagðara. Þetta er ef til vill hluti af þér en þetta skilgreinir þig ekki sem einstakling. Það er enginn eins þrátt fyrir að samfélagið ali börn sín upp til þess að komast fyrir í einum stórum kassa. Veltu því fyrir þér, ef allir væru inn í þessum kassa, væri lífið ekki leiðinlegt?

 

Ekki með ADHD

Sem einstaklingur ekki greind með ADHD hef ég aldrei upplifað eins áhugaverðan og skemmtilegan vinnufélaga og þann sem er með ADHD. Vinnan verður öðruvísi, ánægjulegri og frábrugðnari þessu hefðbundna. Því mæli ég eindregið með því að finna þér einstakling með ADHD, ef þú ert ekki sá hinn sami, og prófa vinna með honum. Þú sérð ekki eftir því, ég lofa.

 

 

María M. Jóhannsdóttir

Höfundur er nemi í BA-námi í íslensku og ritlist.

Hafðu samband

Sendu mér skilaboð og ég hef samband við fyrsta tækiæri.

Ekki læsilegt? Skipta um texta. captcha txt
0